laugardagur, desember 30, 2006

Gleðilegt nyar !



Jólahátíðin fór friðsamlega fram á þessu heimili !
Öll börnin mín voru í mat á aðfangadagskvöld og auk þeirra var pabbi þeirra líka hér og einn vinur Sigga frá USA.




Mamman spilaði svo miðnæturmessu í Grafarvogskirkju og Guðmundur Óskar söng með Hamrahlíðarkórnum við miðnæturmessu í Dómkirkjunni.

Á jóladag var verið heima í náttfötunum langt fram á dag, en öllum var boðið í hangikjöt til mömmu og pabba kl 6.





Eftir hádegi á annan í jólum var svo skírnarmessa í Grafarvogi og börn úr öllum barnakórunum mættu til að syngja.
Þau eru bara yndisleg :) (þarf að eiga mynd af þeim!!)

Nú á að fara að leggja kalkúnann í pækil svo hann verði mjúkur og góður annað kvöld.
Þá á ég von á foreldrum mínum í mat í viðbót við heimilisfólkið mitt og vinkonu hans Sigga.
Þannig að það verður örugglega gaman á bænum.

Sendi öllum mínar bestu óskir um gleðilegt nýár !!

föstudagur, desember 22, 2006

Jolin nalgast !

Og ég hélt að eftir æfingu hjá unglingakórnum í dag væri frí fram á jólanótt.
En nei - hringir ekki Davíð Ólafs og biður mig að spila með þeim Stefáni í Kastljósinu á morgun :)
Segir maður nei? Ekki aldeilis !!!
Svo maður verður að setja á sig spariandlitið - fara í fínu fötin - og spila eins og engill :) :)

Jólatréð ekki ennþá komið á sinn stað á þessu heimili.
Allir svo rólegir þótt jólin séu að koma eftir korter.

Skrapp með yngstu börnin í Kringluna í kvöld - en keypti ekkert nema gullfallega (gyllta) spariskó á sjálfa mig :)

Vonandi verður veðrið skaplegra á morgun svo við getum tekið labb á Laugaveginum.

Skrifa aftur seinna.
Sæl að sinni.

föstudagur, desember 15, 2006

Ísland i bitið !

Jæja, þá er maður búinn að fara aftur í beina útsendingu á Stöð 2.

Þátturinn í morgun var sendur út að hluta til úr Grafarvogskirkju. Og ég og krakkakórinn vorum mætt "á settið" kl 6:45 !!!!
Krakkarnir sungu kl rúmlega hálf átta og voru rosa fín - held ég. Þau mættu nánast öll og sungu prýðilega - miðað við að vera farin að gala á undan hananum !!!
Svo var tekið pínulítið viðtal við mig og þrjá krakka úr kórnum.
Þetta var bara gaman :) :)

Svo á krakkakórinn að syngja í kirkjunni á sunnudaginn við messu.
Og á þriðjudaginn hefur kórinn verið beðinn að koma í eitt af fyrirtækjum borgarinnar til að skemmta starfsfólki :)
Og svo syngja þau við skírnarmessu á annan í jólum.

Já, það er vinna að vera í kirkjukór, þótt það sé bara barnakór !!!

Nýjasti kórinn, Kór starfsmanna Reykjavíkurborgar, söng í fyrsta sinn fyrir áheyrendur í gær, fimmtudaginn 14. des.
Það var á fundi hjá starfsmannafélaginu. Borgarstjórinn átti nú að vera þarna - en hann hefur víst mikið að gera og þurfti að yfirgefa samkvæmið áður en kórinn söng. Synd - fyrir hann !!!! sko borgarstjórann :) Jú, og kórinn líka auðvitað.
En móttökurnar voru fínar og allir höfðu gaman af :)

Jólatónleikar fyrir nemendur Tónskólans Do Re Mí sem stunda námið í Landakotsskóla voru í dag kl. 5 og voru ágætir. Nema það vantaði svolítið af krökkum - eins og oft gerist.
Svo voru jólatónleikar í Domus Vox líka í dag. Það var voða skemmtilegt. Nemendur sungu einir og svo voru dúettar, tríó, kvartettar og litlir sönghópar. Fínir tónleikar hjá þeim. Ég spilaði undir í nokkrum atriðum.

Svo var Guðmundur Óskar að spila á tónleikum í kvöld í Tjarnarbíói með Hjaltalín. Þau voru ein af þremur hljómsveitum sem hituðu upp fyrir Benna Hemm Hemm og stóðu sig vitanlega vel :) :) En af því ég vaknaði svo snemma, þá fór ég nú heim eftir að Hjaltalín var búin að spila - sorry !!! Og Harpa Sól var með mér og hún var líka svo sybbin litla stýrið.
En það var gaman að hitta þarna Karen og Bjössa. En Rebekka var ein af þeim sem spiluðu með Hjaltalín :)

Á morgun ætla ég í vinnuna !!!! Skrítið???
Nei ég ætla að vera að vinna seinnipartinn í kirkjunni.
Vitiði af hverju? Það er vegna þess að
Oslo Gospel Choir er með tónleika í kirkjunni.

Svona er nú gott að vinna í Grafarvogskirkju - he he he ! ! ! !

Skrifa ykkur meira seinna.
Góða nótt - og Guð geymi ykkur.

sunnudagur, desember 03, 2006

Buin að sækja Danmörku heim.





Jæja, þá er maður búinn að koma einu sinni enn til Kaupmannahafnar. Hún er alltaf jafn yndisleg :)
En það var ansi mikið af fólki á labbinu - stundum of mikið !!!

Ég fékk að fara í skólann með Ingibjörgu á miðvikudaginn. Skólinn heitir Complete Vocal Institut og er í miðborginni.
Þar hitti ég marga söngvara sem voru að klára eins árs diplom í þessum söngfræðum.
Fékk að hlusta á kennslustund sem Hulda Björk var í hjá henni Sadolin - það var rosalega flott upplifun, að heyra hvernig röddin hennar gjörbreyttist við tilsögnina. Yfirtónarnir gjörsamlega flæddu af þvílíku offorsi að eyrun áttu fullt í fangi með að meðtaka.

Tónleikarnir um kvöldið voru hreinasta unun. Allir söngvararnir stóðu sig afbragðs vel. Og íslenskur vinur sem var með mér á tónleikunum hafði orð á því, hvernig 300þús. manna þjóð gæti átt svona marga frambærilega söngvara sem raun ber vitni.
Þessi sami vinur ætlar að fylgjast náið með þessum söngskóla og þeim sem þaðan koma !!!!

Ég bjó í voða krúttlegri íbúð úti á Amager. Þið getið séð hana á www.houseofcolors.dk - en ég er nú ekki á myndunum !!! he he

Á fimmtudaginn, þegar við Ingibjörg vorum búnar að ganga okku upp að öxlum, kom Guðlaug frænka mín og sótti okkur niður í bæ. Fór með okkur heim til þeirra, hennar og Svenna og þau gáfu okkur yndislegan mat með öllu tilheyrandi. Svo keyrði hún okkur aftur út á Amager í íbúðina.

Ingibjörg mín fór heim á föstudagsmorguninn en ég rölti áfram um Köben, kíkti á matsölustaði og búðir og aðeins á krárnar. Ég þurfti aðeins að byrgja mig upp fyrir kveðjustundina. En svo gekk það áfallalaust fyrir sig að kveðja Kaupmannahöfn með því sem tilheyrir henni :)


Flugið gekk vel - nóg pláss í vélinni þannig að ég hafði 3 sæti og gat lagst :) Yngstu börnin voru svo mætt á flugvöllinn með pabba sínum að sækja mig. Það er alltaf gott að koma heim :)

Svo tók vinnan við strax á laugardagsmorguninn með því að Brokkkórinn söng á jólafundi hjá Parkinson-samtökunum. Og seinnipartinn var æfing á helgileik í Grafarvogskirkju, sem fluttur var í messu í morgun og gekk rosa vel.
Svo er aðventukvöld í kvöld kl 20.00. Heyrði í útvarpinu í morgun að borgarstjórinn á að tala á tveimur stöðum í kvöld, hjá okkur og hjá Pálma í Bústaðakirkju. Mér finnst þetta pínu hallærislegt, að ræðumaður skuli ekki sitja út athöfnina sem hann er að tala á !!!! En þetta var eitthvað klúður með bókun - annar talaði við aðstoðarmann borgarstjóra, sem bókaði hann, en var svo ekki búinn að segja honum frá því, þegar borgarstjórinn bókaði sig á hinn staðinn !!!! Klúður !!!!

Jæja, vinir og aðrir.......eigið þið góða aðventu......við kertaljós og glögg :)

Kveðja til ykkar allra (sem kíkja hér inn!!!)

sunnudagur, nóvember 26, 2006

Afmælisdagurinn hans pabba :)

Já, í dag á elsku pabbi minn afmæli. Það voru nú engar kökur hjá honum, því þau gömlu hjónin eru í henni Ameríku. Þau eru reyndar lögð af stað heim og lenda í Keflavík í fyrramálið. Búin að vera í rúmar 3 vikur að heimsækja góða vini.
Hjartanlega til hamingju með afmælið elsku pabbi :)

Ingibjörg vinkona var hjá mér í tvær nætur núna, en hún er flogin til Kaupmannahafnar til að klára námskeiðið sitt: Complete Vocal Tecnique. Og á miðvikudagskvöldið ætla ég á lokatónleikana og klappa mikið fyrir henni :) Ég sem sagt flýg út á þriðjudaginn um 4 leitið í eftirmiðdaginn. Það verður kærkomin tilbreyting svona rétt fyrir jólatraffikina.

Ég spilaði messu í dag í Víðistaðakirkju. Ekki voru nú margir kirkjugestirnir þar !!! En Siggi Skagfjörð söng og gerði það vel, eins og venjulega.
Í fyrrakvöld spilaði ég í Listasafni Reykjavíkur með Vox Femine í voða fínu matarboði hjá Háskólanum í Reykjavík.
Annars er búið að vera rólegt um helgina. Aðallega verið að sinna yngstu börnunum, fara með þau hingað og þangað.

Veit ekki hvort ég blogga meira fyrr en eftir Köben, svo ég segi bara: Hafið það sem allra best :)

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Vetrarriki !

Jæja, þá skall veturinn á okkur eina ferðina enn. Og kom öllum að órvörum, segja allavega þeir sem selja dekk!!!
Allt í einu varð brjálað að gera á dekkjaverkstæðum. En það er satt, hann kom örlítið snemma. Stundum hefur maður ekki séð snjókorn fyrr en undir jól.

Hvað um það! Á þriðjudaginn fer mín til Köben í nokkra daga. Ég frestaði vetrarfríinu mínu í skólanum og tek það út í næstu viku. Ingibjörg mín ætlar að syngja á tónleikum, ásamt fleirum sem hafa verið í viðbótarsöngnámi. Og maður verður að styðja sína menn (því konur eru líka menn!) Svo verður nú eitthvað kíkt í bæinn, Strikið strikað út og suður og skoðað (allavega) í búðarglugga.

Litlu krúttin mín í Krakkakór Grafarvogskirkju, sungu við hátíðarmessu í kirkjunni s.l. sunnudag. Og ég fékk ekkert smá góða dóma frá fólki !!! Gaman að fá hrós fyrir vinnuna sína (ja, og kannski hæfileika til að vinna með börnum) !!!

Litli kórinn í Landakotsskóla er líka búinn að koma fram. Í Kristskirkju þegar haldið var upp á 120 ára afmæli skólans. Þau sungu fyrir fullri kirkju og meira að segja borgarstjórann og menntamálaráðherra. Og stóðu sig vel þessar elskur :)

Mikil deyfð er yfir kórastarfi í Álverinu :( Ekkert vitað hvernig það fer, en einhverjir eru ekki á því að gefast upp. En þar verður allavega ekki sungið núna á aðventunni. Hestamannakórinn er hins vegar að æfa fullt af jólalögum, svo og Kór starfsmanna Reykjavíkurborgar, en báðir þessir kórar hafa fengið gig í desember. Ein uppástunga hefur komið um nafn á kór borgarinnar: Raddir Reykjavíkur ! Hvað finnst ykkur?

Er að fara í Domus Vox núna í dag, að spila með ungum söngnemendum - voða skemmtilegt að fylgjast með þeim dafna.
Svo eru nokkur gig um helgina, m.a. með Gospelsystrum og að spila messu fyrir Úlrik í Víðistaðakirkju.
Svo fer ég að pakka niður fyrir Danmerkurferðina. Hvað ætli ég þurfi að hafa með mér?? Hvernig viðrar þar?

Já, þetta er gott í bili.
Hafið það sem allra best.



Hljómlistin lýsir því sem maður hvorki getur sagt né þagað yfir. (V.Hugo).

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Góður dagur!

Já, verður hann það ekki barasta???

Allir dagar eru góðir !!!!
Alltaf nóg að gera, kenna, spila og stjórna kórum.
Næsta laugardag er árshátíð Álversins. Þar er nú andinn þreyttur skal ég segja ykkur. Uppsagnir og slæmur andi hefur orsakað það að gestir verða ekki nema rúmlega 100 í stað 500 eins og venjulega hefur verið. Þessi skrýtni andi innan fyrirtæksins hefur haft slæm áhrif á kórstarfið, svo nú lítur allt út fyrir að kórinn syngi í síðasta skipti á laugardaginn. Og vegna mannfæðar munu félagar úr Húsasmiðjukórnum syngja með!!! En við vonandi skemmtum okkur við að flytja þessa frábæru Bítlalagasyrpu.
Og Guðmundur Óskar og félagar hans úr Hjaltalín ætla að spila með kórnum !!! Gaman :)

Kór Starfsmanna Reykjavíkurborgar gengur ágætlega. Fólk hefur samt verið að koma og fara - en er það ekki bara eins og gengur? Það er búið að panta kórinn til að syngja í desember á jóla/afmælisfundi starfsmannafélagsins !!!

Brokkkórinn er í fullu fjöri!!! Æfðum jólalög í gær og það er líka búið að panta hann á jólafund 2.des. Og í gær fengum við tilkynningu um að búið væri að panta hann líka 3. mars á næsta ári (eða hún hélt að það væri örugglega 2007 !!!) svo þetta er nú ekki svo slæmt.

Kyrjukórinn syngur í kvöldmessu í Þorlákskirkju á sunnudaginn nokkur af lögunum sem þær voru með á tónleikunum um daginn. Ekkert er planað með jólasöngva þar austur frá - heldur bara byrja að leggja inn vorprógram. Það er mikill áhugi hjá þeim að fara að Mývatni í júní og syngja hjá Margréti sem er búin að fá Lynnel Joy Jenkins til að vera aðalstjórnanda kvennakóra þá helgi. Það verður gaman að hitta hana aftur :)

Barnakórarnir eru í stuði - eins og alltaf:) Krakkakórinn í Grafarvogskirkju telur orðið yfir 30 börn (einn strákur !!!) og þau eru voða skemmtileg. Sungu í fjölskyldumessu á sunnudaginn var og stóðu sig algjörlega með prýði þessir englar.
Í Landakotsskóla er lítill kór yngsu nemendanna og þau eiga að syngja á laugardaginn í Kristskirkju í tilefni af 110 ára afmæli skólans.

Jæja, þetta voru nú helstu fréttir - skrifa meira seinna!!!

Guð blessi ykkur öll sem nennið að lesa.

föstudagur, október 27, 2006





Fyrri tónleikarnir "KYRJUTVENNA" voru í gærkvöldi í salnum hjá FÍH.

Það komu rúmlega 100 manns að hlusta og stemmingin var rosa fín. Salurinn rómantískur, enda eingöngu lög um ástina á söngskránni. Stelpurnar okkar sætar og nutu sín alveg í söngnum. Þið sjáið innlifunina hjá þeim og Sibba alveg í fíling !
Langar til að þakka Halldóru Aradóttur fyrir píanóleikinn, hún er frábær stelpan !!!

Seinni tónleikar þessara Kyrjukóra verða í Ráðhúskaffi í Þorlákshöfn næsta sunnudagskvöld kl. 20:00. Ekki láta ykkur vanta!!!

sunnudagur, október 15, 2006

Sunnudagur til sælu :)

Voða, voða gott að eiga einn sunnudag frí :)

Það gerist kannski ekki aftur fyrr en eftir áramót !!!

Er í góðum gír, gaman að vera til og allt gengur vel.

Fór á tónleika hjá Hamrahlíðarkórnum í gær - þau syngja nú alltaf vel krakkarnir.
Prógramið næstum það sama og í fyrra, en allt í góðu með það.
Öll tónskáldin kölluð upp (ef þau voru stödd í kirkjunni - og það virtist Þorgerður vita) eftir að flutningi laga þeirra lauk.
Skrítin siður, hélt að þetta væri bara gert við frumflutning verka ?????

Verið hress og kát.

mánudagur, október 09, 2006

Enn ein vinnuvikan að byrja..... og hún verður brjáluð eins og alltaf.
Gott samt að byrja rólega..er í letikasti heima núna og vinnan byrjar með krakkakórsæfingu í Grafarvogskirkju kl 5 í dag.
Svo er það Þorlákshöfn í kvöld. Reyndar var ég þar í gær líka og Kvennakórinn Kyrjurnar hennar Sibbu voru líka með.

Fór í Borgarnes á laugardaginn í Landnámssetrið. Nokkrir kennarar úr Landakotsskóla borðuðu saman kvöldverð og sáu leiksýnginu um Egil Skallagrímssona. Hann Benedikt er alveg FRÁBÆR í þessu !!! Mæli með þessu.

Það var að koma inn um bréfalúguna nýtt eintak af The Chorister með þessari líka fínu mynd af Helen Kemp á forsíðu.
Hún er ennþá að þessi frábæra kona og nú ætlar hún að vera fyrirlesari á ráðstefnum Choristers Guild. Húrra - ég vona að ég haldi þessum dampi!!

Gangi okkur öllum vel :)

miðvikudagur, október 04, 2006

Ja hérna. Ég hlýt að vera latasti bloggarinn!!!

Nú er allt vetrarstarf komið á fulla ferð og ég líka!!
Þeytist á milli vinnustaða eins og raketta.
En á sæmilega rólega 3 morgna í viku.

Var á Patró um síðustu helgi að spila á fjáröflunarskemmtun. Spilaði dinner og svo skemmtiprógam með Davíð Ólafs og Stefáni Stefáns, en þeir kalla sig Íslensku óperudívurnar! Algjörir grallarar :)

Er að æfa árshátíðarprógöm með kór Húsasmiðjunnar og Álkórnum.
Svo er Kyrjukórinn að æfa fyrir Ástarkvöld. Kyrjurnar úr Reykjavík ætla að taka þátt í þeim tónleikum með okkur.
Og tónleikarnir verða tvennir, í FÍH-salnum fimmtudaginn 26.okt. og í Ráðhúsinu í Þorlákshöfn sunnudaginn 29.okt.

Meira seinna :)

fimmtudagur, júlí 27, 2006

Hvað er þetta með sólina?

Er hún í sumarfríi eða?

Ég sakna hennar innilega!

En eins og maðurinn sagði: Enginn er verri þótt hann vökni.
Það er þó ólíkt skemmtilegra að vökna að innan af góðu víni í góðra manna og kvenna hópi t.d. úti á palli í sumar-kvöldsól. En því er nú ekki að heilsa þessa dagana. Maður nennir ekki einu sinni að grilla í þessu.

Og bráðum tekur streðið við. Strax eftir verslunarmannahelgi er raunar vetrarstarfið hafið, því þá fer maður að sækja námskeið. Ég hlakka óskaplega til að fara í Skálholt 8.-10.ágúst. Það er alltaf gaman á námskeiðum í Skálholti - þar líður manni svo vel og er í hópi skemmtilegasta fólks á landinu:)

Meira seinna.
LUVJA.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Rosalega er maður latur að blogga - úfffff!!!!

Nú eru næstum 4 vikur síðan við komum heim frá Búlgaríu. Þar höfðum við það rosalega gott, nutum sólarinnar og alls sem staðurinn hafði upp á að bjóða alveg í botn. Við löbbuðum helling þarna um allt svæðið, lékum okkur á ströndinni, busluðum í sundlauginni við hótelið (sem var mjög gott hótel) eða fórum í vatnagarð sem var stutt frá hótelinu.
Fórum einn daginn í Jeppa-safari, einn daginn til Varna - bara til að labba um miðbæinn og skoða í búðir. Þar á götu hittum við hana Gerði Bolladóttur og elstu dóttur hennar!!
Svo fórum við til Istanbul! Það var nú meiri upplifunin. Keyrt var í rútu, sem fyrir utan okkur og eina íslenska fjölskyldu var full af Rússum. Keyrslan tók heilt kvöld og heila nótt. Komið var á hótel kl. 06:00. Borðaður morgunmatur, farið í skoðunarferð um borgina og meira að segja skroppið til ASÍU, því borgin stendur (sú eina í heimi) í tveimur heimsálfum, aftur á hótel í hádegismat og svo lögðum við okkur í 2-3 tíma. Svo var farið í Tyrkneskt bað - algjört æði! Um kvöldið var skemmtistaður fyrir valinu með þjóðlegum skemmtiatriðum og ágætis mat.
Morguninn eftir var frjáls og þá fórum við á BAZAR sem er eldgamalt yfirbyggt markaðstorg. Þar röltum við um langa lengi, en tókst samt ekki að sjá allt. Svo var farin bátsferð um Bosborus-sundið - matur á hóteli og svo keyrt aftur til Búlgaríu um nóttina.
Maður á vonandi eftir að koma aftur til Istanbul!

Já, þetta er nóg í bili - hlakka til að fá comment frá ykkur.

Bless í bili og vonandi fer sólin að láta sjá sig.

fimmtudagur, júlí 13, 2006

Gvööööð hvað það á við mig að vera í sumarfríi......Ég nenni engu!!!!!
Búin að vera 3 vikur í Búlgaríu með yngstu börnin og þegar heim kom sendi ég þau til pabbans í einhverjar vikur. Veit ekkert hvenær hann fær nóg af þeim og sendir þau til baka.
Búlgaría var æðisleg, gott veður, ágætis matur og ódýr, nóg af litlum búðum, veitingastöðum og rosalega fín strönd með fullt af "activiteti" bæði fyrir börn og fullorðna. Synd að hugsa til þess að starx á næsta ári muni verðlag hækka til jafns við t.d. Spán og Ítalíu, þar sem allt rauk upp með evrunni.
En sem sagt er ég mest í leti þessa dagana nema á sunnudögum þá spila ég fyrir Hörð kl 11 í Grafarvogi og fyrir Úlrik kl 20 í Viðistaðakirkju.
Það leiðinlegasta sem ég er að standa í er, að konan sem keypti húsið í Hjallaselinu neitar að borga mér síðustu milljónina og segir að ég hafi haldið frá henni hinum og þessum göllum í húsinu. Þannig að núna eru skoðunarmenn að meta þetta sem hún kvartar yfir og það fyndnasta er að allir þessir "gallar" hafa verið sýnilegir alveg frá því að ég keypti húsið. Ég hafði ekkert gert til að reyna að fela þá og hún (sem er menntuð fasteignasali) átti náttúrlega að sjá þetta allt við skoðun á húsinu. Þannig að nú er málið komið í þann farveg að þetta fer inn í dómssal með haustinu eða Guð veit hvenær.
Lóa (Valgerður) vinkona varð 50 ára á þriðjudaginn og viti menn: hún sagði að það þýddi ekkert að halda upp á afmæli í júlí, þá væru allt of margir út um hvippinn og hvappinn svo hún stakk af. Og hvert haldiði: út í Grímsey!!!! Norður fyrir heimskautsbaug!!
Þar eyddi hún deginum með sínum yndislega eiginmanni. En ég rétt vona að hún haldi almennilegt partý í ágúst og að þá verði allir komnir úr sumarfríi sem henni þykir skemmtilegir.
Hafið það alltaf sem best.
Og látið heyra í ykkur.

þriðjudagur, júní 06, 2006

Það verður að segjast eins og er að ég er ekki duglegur bloggari.....það er svo margt annað sem ég þarf að gera. Núna eru ekki nema rúmir tveir sólarhringar þar til ég flýg í fríið - til Búlgaríu með litlu krílin mín í farteskinu. Og þó að ég hlakki voða til að sjá þetta land og læra um þess siði og venjur, þá kvíði ég líka dálítið fyrir þremur vikum með grísina litlu.

Ég fór á tónleika í dag í Hallgrímskirkju. Rosalega voru þeir fínir. Kórinn er náttúrlega bara samansafn af gífurlega færu tónlistarfólki. Og þau stóðu sig sannarlega vel.

Ég var líka á tónleikum í þessari sömu kirkju á Listahátíð og hvað haldiði að ég hafi hlustað á þá: Angelites, Búlgarska kvennakórinn - og VVVÁÁÁÁ hvað það var gaman. Það eru nokkur ár síðan ég skrifaði Listahátíð bréf og benti þeim á að fá þennan kór og núna upplifði ég að hlusta á þær "life" ÆÐI.

Sama kvöld hlustaði ég á Miriam Makeba í Laugardalshöllinni. Hún er frábær kona, en mér þóttu strákarnir í hljómsveitinni ekki alveg passa í myndina sem ég vildi sjá og heyra, þ.e. afrikan músík. Þeir voru voða ameríkan jazzaðir. Mér hefði þótt betra að þeir kæmu nánast beint út úr frumskóginum.

Vona að allir hafi það gott.
Þangað til næst: loveja all.

þriðjudagur, maí 09, 2006

Þessir dýrðardagar........
Fór í kvöldgöngu í gærkvöldi, hitti Margréti Bóasdóttur, hina námsfúsu. Hún var að ditta að garðinum sínum, bera á mosaeyði o.s.frv. Hún gaf sér samt tíma til að rölta með mér meir en hálfa leið heim.
Nú fer vetrarstarfinu að ljúka. Söngnemendur Ingveldar Ýrar fara í próf á morgun. Nemendatónleikar þeirra verða svo í Gerðubergi á laugardaginn kl. 13:00.
Strax eftir þá, keyri ég austur í Vík til að spila með Kór Íslandsbanka.
Á sunnudaginn eru tónleikar hjá barnakórum Grafarvogskirkju kl 16:00 og ég spila þar.

Svo fer að róast eftir annasaman vetur.
Ég hlakka líka til að fara í FRÍ í 3 vikur til Búlgaríu Jibbbbbbíííííí.

Meira seinna.

width="240" height="180"
alt="Goddess Rendering Orgasms and Affection"
border="0">

sunnudagur, maí 07, 2006

GLEÐILEGT SUMAR.
Hugsið ykkur, þann 7. maí er 17 stiga hiti á hádegi hér í höfuðborg ÍSlands!!! Sannarlega léttist á manni brúnin við þetta. Ég er búin að spila messu í morgun í Grafarvogskirkju og fara á danssýningu með Hörpu Sól á Broadway. Hennar uppskera á vetrarstarfinu er þá búin, en skautasýningin var fyrir nokkru. Ég vona að hún haldi þessu áfram stelpan mín, því þetta eru hvort tveggja fallegar íþróttir. En næsta haust þarf ég endilega að senda hana líka í eitthvert tónlistarnám.

Seinustu helgi var ég með kórana mína á "kóramóti" en það er orðið árvisst í starfi þeirra, að hittast á vorin og syngja fyrir hvern annan og einnig saman. Í þetta sinn fórum við til Njarðvíkur og hittum Gospelkór Suðurnesja, sungum með þeim og borðuðum frábæran kvöldverð. Daginn byrjuðum við þó á því að fá gamlan vin sem er leiðsögumaður til að koma með okkur í rútuna og segja okkur frá hinu og þessu. Við keyrðum í gegnum Keflavík, út í Garð með viðkomu í Helguvík, síðan til Sandgerðis og svo í Innri-Njarðvík og Ytri-Njarðvík. Dagurinn hepnaðist mjög vel og allir brostu þeir út að eyrum.

Guðmundur Óskar er á kafi í próflestri á milli þess sem hann spilar hér og þar. Hann, ásamt félögum í Hjaltalín eru búnir að fá "Skapandi sumarstarf" hjá borginni, svo þau semja og spila músik í 8 vikur í sumar.
Hreinn Gunnar er búinn í prófum og byrjar að vinna á morgun á Thorvaldsen.
Gylfi iðkar handbolta með Val og fór hann t.d. í keppnisferð til Akureyrar helgina fyrir páska.

Jæja, þetta er nú nóg handa ykkur í dag.
Heyrumst seinna.
Eigið þið góðan dag - já alla daga.

mánudagur, apríl 10, 2006

Í dag eru 5 vikur síðan aðgerðin var gerð á Lansanum og mér hefur gengið mjög vel að jafna mig. Fór að vinna smátt og smátt og verð svo komin í fullt form 24. þegar ég þarf að fara aftur að kenna. En svo vorar snemma - eða þannig - ekki mjög langt eftir af skólanum. S.l. fimmtudag var ég við frumsýningu á leikriti í Njarðvíkurskóla, en hafði haft svolítið með það að gera, þar sem ég æfði krakkana í söngatriðunum. Þetta var erfið vinna - krakkar eru erfiðir nú til dags. Og sjálfum sér verst. Þau taka illa eftir, láta sér ekki detta í hug að fara eftir fyrirmælum og svara fullum hálsi!!!
En þau stóðu sig ótrúlega vel á frumsýningunni. Áfram Njarðvík!! Líka í körfunni!!!
Guðmundur Óskar syngur í kór MH og þau sungu tónleika með Synfó á fimmtudaginn - því missti ég af :(
Hreinn Gunnar er ánægður í Iðnskólanum í Hafnarfirði og vinnur svo með skólanum í BYKÓ Hringbraut.
Gylfi Björgvin var á Akureyri um helgina á handboltamóti, en hann æfir með VAL núna. Og Harpa Sól fór á skautaæfingu og á þriðjudaginn kl 6 er sýning hjá þeim í Skautahöllinni. Hún æfir líka samkvæmisdansa og sýningin þar verður 7. maí á Broadway (ekki í New York!)

Nóg í bili - góða nótt og góða daga!

mánudagur, apríl 03, 2006

Jú, jú! Haldið þið ekki bara að allt sé að virka hér!!!
En þar sem komin er svarta nótt, þá ætla ég að fara að knúsa nýja rúmið mitt, sem ég keypti eftir fimmtugs afmælið. Gvöð - afmælið - það var nú eitt stórkostlega kvöld sem maður hefur lifað. Það var rosalega gaman...... : )

Sjáumst hress og bless.
Hæ, þetta er ég og ég er að læra þessa vinsælu iðju að BLOGGA. Nú ætla ég að gá hvort þetta skilar sér á síðuna mína. Bæ.