Já ég hef fengið skammir fyrir blogg-leti, en það er ekki alveg mér að kenna.
Landsbyggðin fær oft ekki eins góða þjónustu eins og höfuðborgarsvæðið og fleiri þéttbýlisstaðir t.d. hvað varðar netaðgang.
Netið hefur verið með eindæmum slæmt hérna og sem dæmi ætlaði tölvan að vera 9 klukkutíma að hlaða niður msn forritinu í nýju tölvuna hjá mér. Þá sagði ég nei takk !!!!
Ég er mjög óvinsæl hjá Hive, því ég hringi nokkrum sinnum í viku til að kvarta undan seinagangi eða bara engu sambandi.
Krakkaræflarnir sem svara í símann geta auðvitað ekkert að þessu gert en reyna að láta mig ekki fara í pirrurnar á sér - það gengur mis-vel en oftast eru þau nú sæmilega þolinmóð að svara athugasemdum.
Þetta á auðvitað ekki að vera svona. Við úti á landi borgum fyrir fulla þjónustu, fullan aðgang að netinu - en verðum svo að hanga fyrir framan skjáinn og bíííííííííða. Það er illa farið með dýrmætan tíma manns !!!
Hér er annars allt í fínu :) Já, og kannski rúmlega það! Við skruppum til Akureyrar á föstudaginn eftir skóla til að kaupa svarta skó á Gylfa fyrir þorrablótið. Keyptum líka fermingarfötin í leiðinni !!!!! Og Harpa fékk leggings. Ég ætlaði að kaupa mér sundgleraugu --- en keypti í staðinn BÍL !!!!!!
Ég setti Mussóinn uppí glæsikerru af tegundinni VOLVO Cross country - þvílíkur draumabíll. Bara rétt eins og að sitja í Lazy-Boy sófa eða svona svipað og var með Chryslerinn minn.
Og nú eru allir sáttir og glaðir.
Það hefur verið töluvert að gera, því um síðustu helgi var haldið þorrablót skólans. Og þvílík hátíð !!!!! Eldhús skólans sá um matinn, nemendur sáu um skemmtiatriðin, kennarar sáu um gæslu og uppvask og svo var hljómsveit sem spilaði fyrir dansi fram yfir miðnætti. OG hér dansa allir "í haldi" ..... nemendur nýta sér danskennsluna sem þau fá í viku á hverju ári og sýndu frábæra takta. Auk þess dansa foreldrar við börn sín á öllum aldri og allir skemmta sér vel.
Skemmtiatriðin voru:
Lúðrasveitin spilaði þrjú lög.
Litli kórinn söng fimm lög.
Þrír nemendur á harmónikkur spiluðu saman eitt lag.
Nemendur miðstigs fluttu leikrit eftir handriti eins kennara skólans.
Nemendur 8.bekkjar fluttu leikþátt bæði á sviði og einni af videói sem þau voru búin að taka upp, klippa og setja tónlist inná.
Formaður nemendafélagsins hélt ræðu.
Einn nemandi söng einsöng, en hún vann söngkeppni á Laugum helgina áður.
Eldri kórinn söng 4 gospellög.
Kynnar kvöldsins voru tvær stúlkur úr 10. bekk.
Harpa Sól lék í leikriti miðstigs og söng í eldri kórnum og Gylfi Björgvin lék í 8.bekkjar leikritinu.
Daginn eftir, laugardaginn 23. febrúar var kóramót á Húsavík í tilefni af Degi tónlistarskólanna og að Samkór Húsavíkur hafði keypt og gefið kórpalla. Karlakórinn Hreimur tók þátt í þessu og söng bæði sér og í sameiginlegum lögum allra kóranna.
Ég spilaði líka með unglingakórnum sem Hófí stjórnar.
Í söngskrá var getið allra kóra og stjórnenda - en mitt nafn var það eina sem hvergi kom fram. Þegar gerð eru prógröm á prenti þarf fólk að vanda sig að allt komi fram, því þetta eru sögulegar heimildir.
Sunnudaginn 24.02 spilaði ég svo fyrstu eiginlegu messuna og var hún í Nesi. Það gekk ágætlega, þótt harmóníumið þarfnist nú orðið yfirhalningar.
Í dag var svo vetrarfrí í skólanum og tókum við því lífinu létt í dag og dúlluðum okkur bara heima, þar til í kvöld að ég varð að fara á karlakórsæfingu. Jú, Gylfi skrapp í Torfunes með hnakkinn sinn og fór í tvo reiðtúra og Harpa fór í fimleika á Húsavík.
Ég set inn myndir seinna.
Hafið það gott elskurnar.