þriðjudagur, apríl 07, 2009

Páskafrí

Hvernig nýti ég páskafríið?

Dagur 1: Þvoði hauga af fötum, handklæðum og rúmfötum.
Dagur 2: Þvoði meira, vann í heimasíðunum, skipulagði tímana marimbanámskeiðinu.
Dagur 3: Keyra til Akureyrar svo börnin geti farið í Fjallið, fór á fund með Ástu og Adrien að klára skipulagninguna á marimbanámskeiðinu. Æfing með "Garðari Hólm" um kvöldið sat svo langt fram á nótt við að reikna út skiptingu kostnaðar við rekstur tónlistarskólans á sveitarfélögin sem koma að honum.
Dagur 4: Held áfram að vinna við heimasíðurnar, svara pósti og kíki á facebook. Baka köku fyrir fjáröflunar-kökubasar hjá fimleikadeildinni á Húsavík. Pakka niður með börnunum sem fara suður á morgun. Svo er kirkjukórsæfing í kvöld.
Dagur 5: Keyri börnin til Akureyrar í flug. Sendi kökuna til Húsavíkur. Vinn áfram í heimasíðunum. Fer í matarboð með strákunum í "Garðari Hólm". Þar verður sennilega sungið!

Meira seinna.

laugardagur, apríl 04, 2009

Jú, ég er lifandi !!!

Þótt litlu hafi mátt muna að ég snjóaði í kaf hér um daginn, þá er dagurinn í dag með allra fegurstu vetrardögum .... og það sést nánast til vorsins. Glampandi sól á hjarnaða jörðina, ljósblár himinn og flugur að vakna til lífsins.

Hér hefur allt gengið nánast sinn vanagang frá áramótum. Þorrablót voru haldin með pompi og pragt og öllum þeim venjum og siðum sem tíðkast.



Vorfagnaður karlakórsins Hreims (sem eru þeirra aðal-tónleikar í heimabyggð) var haldinn s.l. laugardag. Diddú kom og söng með kórnum, sem og kvartettinn Út í vorið. Tónleikarnir voru alveg ágætir en tónleikagestir hefðu mátt vera fleiri. Bæði gerði að veðurspáin var ekki hagstæð og kannski eiga ekki allir aflögu aur til að koma á tónleika, en svo dettur manni í hug að "unga fólkið" hafi ekki brennandi áhuga á svona "venjulegum" karlakórssöng, jafnvel þótt Diddú hafi verið til skrauts.



Ég held að áhugamannakórar ættu að hugsa aðeins meira út í lagaval sitt og vera með meiri fjölbreytni. Og þá er ég ekki að meina fjölbreytt lagaval á einum tónleikum, heldur vera með mismunandi tónleika. Gera eina tónleika með einhverju sérstöku efni og aðra tónleika með "hefðbundnu" efni. Hvað haldið þið?

Svo brast á páskafrí !!! Ég þarf nú samt að hafa eina kóræfingu eða tvær fyrir messur um páskana. Mér finnst spennandi að fá að upplifa páskavöku um miðnættið á laugardaginn kemur. Þá er messað kl 23.30 í Grenjaðarstað og vakað lengi frameftir.
Svo er messað á páskadag þar og á annan í páskum í Nesi.

Strax á þriðjudag eftir páska verður marimbanámskeið fyrir krakkana úr skólanum hér, á Húsavík og úr Giljaskóla á Akureyri. Námskeiðið verður í Glerárkirkju í þrjá daga og koma tveir kennarar frá Svíþjóð og tveir úr Reykjavík, auk okkar hér fyrir norðan.

Jæja, ætli þetta sé nú ekki nóg í dag? Reyni að segja meiri fréttir fljótlega.
Hafið það sem allra best.