mánudagur, september 29, 2008

Sumarið búið !

Meira að segja hér í dásemdarríkinu er orðið haustlegt. Það var í fyrsta sinn s.l. miðvikudag að það var kalt að koma út að morgni. Fram að þessu hafa börnin ekki verið í utanyfirflíkum en núna kemur Harpa Sól inn eftir hálftíma og er rjóð í kinnum af kuldanum.


Enda góðu vön í sumar - bæði hér á landi og svo fórum við í frí til Flórída og Bahama. Þar var aldeilis hlýtt og gott :)


Við heimsóttum Disney garðana í Orlando og Universal Studeos, gistum á flottum íbúðarhótelum.

Það er margt skemmtilegt hægt að gera í skemmtigörðunum, krökkunum þótti skemmtilegast að fara í rússíbana og "skvettubáta" en í þeim varð maður hundblautur !!!
Ströndin á Bahama er alveg frábær - stórar öldur og æðislegt fjör í sjónum.

Skipið sem við fórum með, var nú ekki stórt eða flott ..... en til Bahama fórum við og nutum þess.

sunnudagur, ágúst 17, 2008

Kóramót í Eistlandi !
Þriðjudaginn 5. ágúst hófst Nordic-Baltic kórfestival í Tartu í Eistlandi. Eini íslenski kórinn sem tók þátt var Kyrjukórinn úr Þorlákshöfn. Auk hans voru 2.300 kórsöngvarar frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi og svo frá Lettlandi, Litháen og Eistlandi. Nokkrir rosalega góðir kórar og kórstjórar voru þarna - þótt ég hafi nú ekki heyrt nema örfáa kóra.Setningarathöfnin var á þriðjudagskvöld og hófst með lúðrablæstri, en síðan var tilkynnt að þeir söngvarar sem lengstan veg ferðuðust til að mæta væru frá Íslandi. Og með það gekk ég klædd íslenskum upplut uppá "runway" og gekk syngjandi Hani, krummi, hundur, svín ...... frammi fyrir fjölda fólks, upp á svið þar sem við íslendingar vorum boðin velkomin !!!
Það var reyndar bara ég og Garðar Cortes sem vorum komin, því kórinn var á leiðinni í rútu frá Tallin !!

Næstu tvo daga voru fyrirlestrar fyrir kórstjóra fyrir hádegi um kórtónlist og þróun hennar í nokkrum landanna. Einnig voru kynnt ný kórverk frá nokkrum þeirra m.a. kynnti Garðar verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Á sama tíma voru kórar að syngja tónleika í kirkjum og á sviðinu á ráðhústorginu.
Eftir hádegismat voru svo sameiginlegar kóræfingar á stóru útisvæði ætlað til kórsöngs: Song celebration ground !
Á kvöldin voru tónleikar í kirkjum og í tónleikahúsi borgarinnar: Vennemuje !Á föstudeginum var kórum ekið hingað og þangað, þremur til fjórum á sama staðinn. Þar fengu þátttakendur leiðsögn um staðina, hádegismat og síðan voru tónleikar kl 5. Okkar kór fór ásamt tveimur norskum og einum frá Lettlandi í bæ sem heitir Elva og áttum við mjög ánægjulegan dag. Tónleikarnir gengu alveg ágætlega í lítilli kirkju - án hljóðfæris en með mikilli fúkkalykt!!Samæfing var fyrir hádegi á laugardeginum og um miðjan dag var safnast saman á ráðhústorginu í risa-langa skrúðgöngu. Lokatónleikarnir fóru svo fram á söng-svæðinu og gekk allt mikið vel. Sunginn var mótssöngur frá Eistlandi, síðan tvö lög frá öllum þátttökulöndunum og í restina lögin fjögur sem voru mótslög á árum áður, en þetta var í fimmta sinn sem svona mót er haldið. Í lok tónleikanna var tilkynnt að næsta mót, árið 2010 verði haldið á ÍSLANDI !!! og tók Garðar Cortes formlega við fána þessara kóramóta til að hafa með til Íslands.Okkar hópur átti svo bæði sunnudag og mánudag fyrir sig í Tartu en flugið heim var á þriðjudeginum kl 18.10 frá Tallin.
Ég fór á undan hópnum til Tallin til þess að fá smá tíma til að skoða gamla miðbæinn þar. Hann er alveg hreint yndislegur og var ég glöð að hafa drifið mig ..... þótt fæturnir á mér, allir sundurstungnir af flugum, væru sannarlega sárir og aumir.
Þegar ég fór til læknis eftir heimkomuna var ekki við annað komandi en ég yrði sett á steralyf til að láta þetta lagast. Og annað: þar sem ég er að fara til USA á miðvikudaginn í frí með börnin, þá verð ég sannarlega að halda áfram að dæla í mig sterum og ofnæmislyfjum til að fara ekki svona illa aftur.

sunnudagur, júní 29, 2008

Nýjar fréttir

Tíminn flýgur !!!

Og þið hafið ekki fengið nýjar fréttir í laaaaaaangan tíma ...... ussss skömm að þessu !!!

Núna er ég stödd í höfuðborginni. Er að fara að spila með 5 söngnemendum í stigsprófum á morgun og æfði með þeim fimmtudag, föstudag og laugardag.
Svo ætla ég í Þorlákshöfn annað kvöld að hitta Kyrjukórinn, en við förum 5. ágúst til Eistlands á Nordic-Baltic kóramót.

Þann 15. júní flugum við mæðgur, ásamt 30 öðrum úr Aðaldal til Köben. Þaðan fórum við með lest til Varberg í Svíþjóð á þriggja daga námskeið í afríkanskri tónlist. Spiluðum á marimbur, Mbirur, Jembe-trommur, sungum og dönsuðum !!!! Gistum í fangelsi úti á tanga við sjóinn !! (myndir koma seinna).
Síðan var aftur farið til Köben og gist í tvær nætur, farið í Dýragarðinn, Strikið gengið og svo í Tívolí fram á kvöld.
Ferðin gekk vel og allir komu glaðir og ánægðir heim. . . . OG - við fáum einn af kennurunum frá námskeiðinu til okkar norður í lok júlí. Ég veit að krakkana hlakkar rosalega mikið til að hitta hann aftur - hann var svo skemmtilegur :)

Þegar ég fór að heiman skildi ég SYNGIBJÖRGU og hennar fylgifiska eftir í húsinu. Þau voru í sumarfríi - en veðrið lék aldeilis ekki við þau og flúðu þau fljótlega til Reykjavíkur. Skömm að þessu kæru veðurguðir :(

Vona að þið hafið öll keypt nýju plötuna hans SIGGA ...... "Oft spurði ég mömmu"
Ef þið hafið ekki gert það ennþá, drífið ykkur þá út í búð og kaupið "Sleepdrunk season" með Hjaltalín í leiðinni. Slakið svo á í sumarfríinu og hlustið endalaust á frábæru strákana mína ..... hahahah.

Hafið það best af öllum.
Og munið eftir sólarvörninni :)

miðvikudagur, mars 19, 2008

Tónlistarverðlaunin.

Jæja, þá hafa tónlistarverðlaunin verið veitt fyrir árið 2007.

Guðmundur Óskar og vinir hans í Hjaltalín voru með flestar tilnefningarnar - en hlutu tvenn verðlaun. Högni sem söngvari ársins og hljómsveitin sem bjartasta vonin.

Siggi fékk verðlaunin fyrir Megasarplötuna - en hún var besta plata í flokki popptónlistar.

Hátíðin var mjög fín og gaman að Páll Óskar "átti kvöldið". Rúnar Júlíusson fékk heiðursverðlaunin - gaman að því.

Nú - þótt ég sé í Reykjavík í "páskafríi" - þá er samt nóg að gera. Ég spila messu á RUV í fyrramálið og síðan tvær messur á páskadag. Já, og svo fermist Gylfi Björgvin á annan. Það verður vonandi bara gaman, þótt ég sé nú lítið byrjuð að undirbúa veislu. Ætli ég hristi hana ekki fram úr erminni svona eins og mér er einni lagið ?? haha.

Meira seinna.

Gleðilega páska !!!

mánudagur, febrúar 25, 2008

Fréttir úr Aðaldalnum.

Já ég hef fengið skammir fyrir blogg-leti, en það er ekki alveg mér að kenna.
Landsbyggðin fær oft ekki eins góða þjónustu eins og höfuðborgarsvæðið og fleiri þéttbýlisstaðir t.d. hvað varðar netaðgang.
Netið hefur verið með eindæmum slæmt hérna og sem dæmi ætlaði tölvan að vera 9 klukkutíma að hlaða niður msn forritinu í nýju tölvuna hjá mér. Þá sagði ég nei takk !!!!

Ég er mjög óvinsæl hjá Hive, því ég hringi nokkrum sinnum í viku til að kvarta undan seinagangi eða bara engu sambandi.
Krakkaræflarnir sem svara í símann geta auðvitað ekkert að þessu gert en reyna að láta mig ekki fara í pirrurnar á sér - það gengur mis-vel en oftast eru þau nú sæmilega þolinmóð að svara athugasemdum.

Þetta á auðvitað ekki að vera svona. Við úti á landi borgum fyrir fulla þjónustu, fullan aðgang að netinu - en verðum svo að hanga fyrir framan skjáinn og bíííííííííða. Það er illa farið með dýrmætan tíma manns !!!

Hér er annars allt í fínu :) Já, og kannski rúmlega það! Við skruppum til Akureyrar á föstudaginn eftir skóla til að kaupa svarta skó á Gylfa fyrir þorrablótið. Keyptum líka fermingarfötin í leiðinni !!!!! Og Harpa fékk leggings. Ég ætlaði að kaupa mér sundgleraugu --- en keypti í staðinn BÍL !!!!!!

Ég setti Mussóinn uppí glæsikerru af tegundinni VOLVO Cross country - þvílíkur draumabíll. Bara rétt eins og að sitja í Lazy-Boy sófa eða svona svipað og var með Chryslerinn minn.

Og nú eru allir sáttir og glaðir.

Það hefur verið töluvert að gera, því um síðustu helgi var haldið þorrablót skólans. Og þvílík hátíð !!!!! Eldhús skólans sá um matinn, nemendur sáu um skemmtiatriðin, kennarar sáu um gæslu og uppvask og svo var hljómsveit sem spilaði fyrir dansi fram yfir miðnætti. OG hér dansa allir "í haldi" ..... nemendur nýta sér danskennsluna sem þau fá í viku á hverju ári og sýndu frábæra takta. Auk þess dansa foreldrar við börn sín á öllum aldri og allir skemmta sér vel.

Skemmtiatriðin voru:

Lúðrasveitin spilaði þrjú lög.
Litli kórinn söng fimm lög.
Þrír nemendur á harmónikkur spiluðu saman eitt lag.
Nemendur miðstigs fluttu leikrit eftir handriti eins kennara skólans.
Nemendur 8.bekkjar fluttu leikþátt bæði á sviði og einni af videói sem þau voru búin að taka upp, klippa og setja tónlist inná.
Formaður nemendafélagsins hélt ræðu.
Einn nemandi söng einsöng, en hún vann söngkeppni á Laugum helgina áður.
Eldri kórinn söng 4 gospellög.

Kynnar kvöldsins voru tvær stúlkur úr 10. bekk.

Harpa Sól lék í leikriti miðstigs og söng í eldri kórnum og Gylfi Björgvin lék í 8.bekkjar leikritinu.

Daginn eftir, laugardaginn 23. febrúar var kóramót á Húsavík í tilefni af Degi tónlistarskólanna og að Samkór Húsavíkur hafði keypt og gefið kórpalla. Karlakórinn Hreimur tók þátt í þessu og söng bæði sér og í sameiginlegum lögum allra kóranna.
Ég spilaði líka með unglingakórnum sem Hófí stjórnar.
Í söngskrá var getið allra kóra og stjórnenda - en mitt nafn var það eina sem hvergi kom fram. Þegar gerð eru prógröm á prenti þarf fólk að vanda sig að allt komi fram, því þetta eru sögulegar heimildir.

Sunnudaginn 24.02 spilaði ég svo fyrstu eiginlegu messuna og var hún í Nesi. Það gekk ágætlega, þótt harmóníumið þarfnist nú orðið yfirhalningar.

Í dag var svo vetrarfrí í skólanum og tókum við því lífinu létt í dag og dúlluðum okkur bara heima, þar til í kvöld að ég varð að fara á karlakórsæfingu. Jú, Gylfi skrapp í Torfunes með hnakkinn sinn og fór í tvo reiðtúra og Harpa fór í fimleika á Húsavík.

Ég set inn myndir seinna.
Hafið það gott elskurnar.

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Flutt í sveitina.


Sunnudaginn 6. janúar 2008 lagði ég af stað með troðfullan jeppa af töskum og dóti og tveimur börnum.
Ferðinni heitið norður í Aðaldal í einni lotu. Veðurspáin gerði ráð fyrir alauðu og hlýindum.
Það stóðst nú ekki alveg og voru kaflar á leiðinni ansi leiðinlegir - bæði snjókoma og hálka. En um leið og ég beygði út Kinn var orðið mar-autt og hefur ekkert snjóað hérna.
Okkur líst voða vel á þessi nýju heimkynni og þótt við búum fyrstu dagana bara á gömlu heimavistinni, þá líður okkur vel.

Ég er búin að hitta næstum alla nemendur sem ég á að kenna í vetur, gera stundaskrá sem sennilega heldur lögun og skoða króka og kima í skólanum. Hér eru allir elskulegir og taka mjög vel á móti börnunum mínum, sem eflaust hefur kviðið smá fyrir þessum breytingum.

Í gær tókum við Gylfi rúnt og fórum í Torfunes, þar sem hann fær að vera með hestinn sinn þegar líður. Svo skruppum við til Húsavíkur að versla smá inn. Í gærkvöldi fórum við svo út í Ídali til að hitta Karlakórinn Hreim, en ég verð að spila með þeim í vetur.

Í dag eftir skóla keyrðum við til Akureyrar - skruppum í nokkrar búðir - keyrðum upp í Hlíðafjall - og fengum okkur að borða.
Þegar við komum aftur í Hafralæk fórum við í sund í okkar einkasundlaug !!! Þetta er bara snilld !!!

Hafið það gott þangað til næst.

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Gleðilegt nýtt ár !

Ef einhver þarna úti rekur inn nefið á þetta blogg, vil ég

segja við hann: Megi nýtt ár færa þér góða heilsu,

hamingju og velfarnað.

Ég hlakka til þeirra verkefna sem bíða mín á nýja árinu,

á nýja staðnum, í nýja skólanum og nýju kirkjunum.

Það er að segja: þetta verður allt nýtt fyrir mér :)

Kveðja.