Já, þá höfum við yfirgefið norðurlandið og flutt suður aftur. Ég er í Reykjavík, Gylfi Björgvin á Hellu hjá Hreini Gunnari og Harpa Sól með pabba sínum. Þau hafa nú verið austur á Hellu, en fara til Keflavíkur í dag. Pabbinn á að mæta á kóræfingu í kvöld fyrir útför á föstudag. Ætli þau fari svo ekki aftur í sveitina ?
Ég hef nóg að gera á Flókagötunni! T.d. voru öll fötin hans Guðmundar Óskars óhrein !!! Hann og Siggi hafa verið svo uppteknir af tónleikaferðum, tónleikum og upptökum í hljóðveri, að þeir hafa ekkert sinnt "bústörfum" í langan tíma.
Núna er þvottavélin á þriðja skammti og enn eru eftir 6 býst ég við.
Svo þarf ég að koma skikki á allt mitt blaða og bókaflóð og fara að finna til hitt og þetta spennandi fyrir kóra. Er að gera áætlanir um útgáfu á einhverju nýju efni fyrir kóra - a.m.k. barnakóra. Hugmyndin er svo að hafa efnið aðgengilegt á netinu. Í dag er ekki mögulegt að láta prenta kórbækur, því þær seljast ekki nægilega vel. Kórstjórar eru enn að kaupa eitt eintak - eða fá eintök - og ljósrita fyrir kórfélaga.
Jæja, ég held ég haldi nú áfram .... eða kíki aðeins út í sólina.
Hafið það gott !