sunnudagur, ágúst 17, 2008
Kóramót í Eistlandi !
Þriðjudaginn 5. ágúst hófst Nordic-Baltic kórfestival í Tartu í Eistlandi. Eini íslenski kórinn sem tók þátt var Kyrjukórinn úr Þorlákshöfn. Auk hans voru 2.300 kórsöngvarar frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi og svo frá Lettlandi, Litháen og Eistlandi. Nokkrir rosalega góðir kórar og kórstjórar voru þarna - þótt ég hafi nú ekki heyrt nema örfáa kóra.
Setningarathöfnin var á þriðjudagskvöld og hófst með lúðrablæstri, en síðan var tilkynnt að þeir söngvarar sem lengstan veg ferðuðust til að mæta væru frá Íslandi. Og með það gekk ég klædd íslenskum upplut uppá "runway" og gekk syngjandi Hani, krummi, hundur, svín ...... frammi fyrir fjölda fólks, upp á svið þar sem við íslendingar vorum boðin velkomin !!!
Það var reyndar bara ég og Garðar Cortes sem vorum komin, því kórinn var á leiðinni í rútu frá Tallin !!
Næstu tvo daga voru fyrirlestrar fyrir kórstjóra fyrir hádegi um kórtónlist og þróun hennar í nokkrum landanna. Einnig voru kynnt ný kórverk frá nokkrum þeirra m.a. kynnti Garðar verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Á sama tíma voru kórar að syngja tónleika í kirkjum og á sviðinu á ráðhústorginu.
Eftir hádegismat voru svo sameiginlegar kóræfingar á stóru útisvæði ætlað til kórsöngs: Song celebration ground !
Á kvöldin voru tónleikar í kirkjum og í tónleikahúsi borgarinnar: Vennemuje !
Á föstudeginum var kórum ekið hingað og þangað, þremur til fjórum á sama staðinn. Þar fengu þátttakendur leiðsögn um staðina, hádegismat og síðan voru tónleikar kl 5. Okkar kór fór ásamt tveimur norskum og einum frá Lettlandi í bæ sem heitir Elva og áttum við mjög ánægjulegan dag. Tónleikarnir gengu alveg ágætlega í lítilli kirkju - án hljóðfæris en með mikilli fúkkalykt!!
Samæfing var fyrir hádegi á laugardeginum og um miðjan dag var safnast saman á ráðhústorginu í risa-langa skrúðgöngu. Lokatónleikarnir fóru svo fram á söng-svæðinu og gekk allt mikið vel. Sunginn var mótssöngur frá Eistlandi, síðan tvö lög frá öllum þátttökulöndunum og í restina lögin fjögur sem voru mótslög á árum áður, en þetta var í fimmta sinn sem svona mót er haldið. Í lok tónleikanna var tilkynnt að næsta mót, árið 2010 verði haldið á ÍSLANDI !!! og tók Garðar Cortes formlega við fána þessara kóramóta til að hafa með til Íslands.
Okkar hópur átti svo bæði sunnudag og mánudag fyrir sig í Tartu en flugið heim var á þriðjudeginum kl 18.10 frá Tallin.
Ég fór á undan hópnum til Tallin til þess að fá smá tíma til að skoða gamla miðbæinn þar. Hann er alveg hreint yndislegur og var ég glöð að hafa drifið mig ..... þótt fæturnir á mér, allir sundurstungnir af flugum, væru sannarlega sárir og aumir.
Þegar ég fór til læknis eftir heimkomuna var ekki við annað komandi en ég yrði sett á steralyf til að láta þetta lagast. Og annað: þar sem ég er að fara til USA á miðvikudaginn í frí með börnin, þá verð ég sannarlega að halda áfram að dæla í mig sterum og ofnæmislyfjum til að fara ekki svona illa aftur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Til hamingju með þetta allt saman. Þú ert glæsileg! Góða ferð til Ameríku - og heimferð, líklega ertu komin heim aftur.
Skrifa ummæli