mánudagur, mars 12, 2007

Dagur 4
10.mars 2007

Fyrst fór ég kl 8.30 að hlusta á umræður um "show choirs" en ekki mikið á því að græða fyrir íslending þar sem svoleiðis fyrirbæri þekkist varla. En þó var eitt: að skipta vetrinum á milli klassískra kórverka fyrir áramót og léttari tónlistar eftir áramót. Þannig fengju krakkarnir að þjálfa klassíska raddbeytingu og nota tæknina áfram eftir jól þrátt fyrir aðra raddbeytingu í "pop og söngleikjatónlist".
Kíkti svo á “básana” og sá CHIMES !!! ☺ Tvær áttundir í tösku. Ég gekk nú um og hugsaði – og bara jákvætt – fór svo og keypti töskuna !!! Krakkarnir í kirkjunni hljóta að verða ánægðir með þetta hljóðfæri ☺ en það var það sem þau báðu mig að kaupa í Ameríkunni: Nýtt hljóðfæri !!

Svo þurfti ég að dröslast með þessa þungu tösku út um allt !!

Næst fór ég að hlusta á tónlist eftir Kirke Machem. Þarna var kór frá Illinois University sem söng verk eftir hann alveg frá 1970 til dagsins í dag. Og tónskáldið talaði um verkin inn á milli.

Næst á dagskránni voru heiðurskórarnir. Þeir voru þrír að þessu sinni: Barnakór, Highschool kór og Fjölmenningar kór.
Í barnakórnum voru 275 börn og stjórnandi var Jean Arshworth Bartle. Þessi börn voru valin úr 1400 umsækjendum og voru búin að læra lögin heima áður en þau komu til Miami. Á prógraminu voru háklassísk verk og rosalega vel flutt !!!

Stjórnandi eldri krakkanna heitir Bruce Rogers og hefur hann hlotið margar viðurkenningar og meðal annars var hann kosinn besti kórstjórinn í Varna í Búlgaríu í fyrra.
Þessi kór var álíka stór og yngri hópurinn og söng frábærlega.

Fjölmenningarkórinn taldi um 300 ungmenni. Stjórnendur voru tveir, Rollo Dilworth og Francisco J. Núnez og eru þeir báðir líka tónskáld. Lögin sem þessi hópur flutti voru öll ný – og samin jafnvel sérstaklega fyrir þessa tónleika. Það er sko á nokkurra ára (ráðstefnu) fresti sem svona hópur fær að syngja. Við fengum tækifæri til að heyra tónskáldin sjálf segja frá lögunum sínum morguninn áður og það var mjög fróðlegt. Sérstaklega var gaman að sjá hann David Fanshawe, sem m.a. samdi African Sanctus. Hann er sniðugur karl og skemmtilegur og langar til að nýja verkið hans Pacific Song verði flutt á Íslandi – þá ætlar hann að koma. Ég talaði við hann og lét hann árita bókina og diskinn sem ég keypti.

Eftir stóru tónleikana var ein session eftir af kórtónleikum hjá mér. Byrjaði á drengjakór frá Amarillo í Texas - ekkert spes og hallærislegt að stjórnandinn söng altröddina í Pie Jesu eftir A.L. Webber með einum kórdreng.
Þegar hérna var komið við sögu var þolinmæðin fyrir meiri kórsöng þrotin og konan orðin lúin og langaði smá til að skreppa á ströndina. Svo nú var arkað heim á hótel með þungan farangur, farið í strandföt og henst niður á strönd, sem var bara hinum megin við götuna frá hótelinu. En ekki var hitanum fyrir að fara, enda klukkan farin að ganga 5.

Borðaði á hótelinu um kvöldið og pakkaði niður og gat ekki einu sinni bloggað fyrir þreytu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Dugleg ertu :-) Þetta hljómar mjög áhugavert og spennandi. Njóttu vel. kv.Bryndís Baldv.